Meirihlutakosning í tveimur umferðum

Hver notar kosningakerfið? France

Meirihlutakosning í tveimur umferðum er notuð í mörgum löndum í kosningum á landsvísu og á lægri stjórnstigum. Kosningakerfið er sérstaklega vinsælt þegar að forsetakosningum kemur. Það er meðal annars notað í Frakklandi.

Framkvæmd kosninga:

Hver kjósandi greiðir einum frambjóðanda atkvæði. Frambjóðendur geta verið á vegum stjórnmálaflokka eða verið óháðir. Ef frambjóðandi fær hreinan meirihluta atkvæða telst hann kjörinn en ef enginn frambjóðandi fær hreinan meirihluta er önnur umferð haldin á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem flest atkvæði hlutu í fyrri umferðinni. Venjulega er seinni umferðin haldinn stuttu eftir fyrri umferðina – í Frakklandi er seinni umferðin haldin tveimur vikum eftir þá fyrri. Á milli umferðanna berjast frambjóðendurnir tveir um hylli kjósenda og reyna sérstaklega að höfða til þeirra kjósenda sem kusu þá frambjóðendur sem ekki komust í seinni umferðina.

Dæmi:

Frambjóðandi A hlaut 40% atkvæða i fyrstu umferð, B hlaut 30% atkvæða, C hlaut 20% atkvæða og D hlaut 10% atkvæða.

Enginn frambjóðandi er með hreinan meirihluta í fyrstu umferð. Frambjóðendur A og B eru með flest atkvæði og kosið er á milli þeirra í seinni umferðinni. Sá þeirra sem hlýtur fleiri atkvæði í þeirri umferð nær kjöri.

Kostir og gallar:

Kosningakerfið er einfalt og gagnsætt fyrir kjósendur en oftast þarf að halda tvær atkvæðagreiðslur.

Sigurvegari kosninganna hlýtur alltaf stuðning meirihluta kjósenda, annað hvort í fyrri eða síðari umferðinni.

Frambjóðandi, sem meirihluti kjósanda sættir sig ekki við, getur ekki sigrað. Hins vegar er ekki útilokað að frambjóðandi sem datt út í fyrri umferðinni, hefði sigrað sigurvegarann í seinni umferðinni, hefði hann þá verið í kjöri.

Kjósendur geta kosið í fyrri umferðinni frambjóðendur sem hafa litla eða enga von um að sigra án þess að hafa á tilfinningunni að þeir hafi kastað atkvæði sínu á glæ.  Afleiðing þess er gjarnan að margir bjóða sig fram.

Erfitt getur verið að túlka úrslit fyrri umferðarinnar, þar sem sumir kjósendur nota fyrri umferðina til að láta skoðun sína í ljós á meðan aðrir kjósendur reyna að hafa áhrif á hvaða frambjóðendur komast í seinni umferðina. Tilvist seinni umferðar getur líka leitt til framboða sem skortir alvöru og getur það flækt úrslit fyrri umferðarinnar og haft áhrif á það hvaða frambjóðendur komast áfram í seinni umferðina.