Önnur kosningakerfi

Hver notar kosningakerfin? Hver notar

Samþykktarkosning

Samþykktarkosning (krossaaðferð, e. approval voting) er einfalt kosningakerfi sem hefur ekki verið mikið notað en hefur hlotið nokkra athygli fræðimanna sem telja það hafa ýmsa jákvæða kosti.

Samþykktarkosning er notuð í kosningum ýmissa samtaka (t.d. hjá akademískum samtökum á borð við Mathematical Association of America (MAA), American Statistical Association (ASA) og Society for Social Choice and Welfare (WMS)).

Framkvæmd kosninga:

Hver kjósandi kýs þá frambjóðendur sem hann styður eða treystir, til dæmis með því að merkja við nöfn þeirra á atkvæðaseðlinum með krossi. Engin forgangsröðun á sér stað, þ.e. kjósandinn getur ekki tilgreint hvort hann styður þá frambjóðendur sem hann merkir við jafnt eða mismikið. Kjósandanum er hins vegar frjálst að kjósa eins marga eða eins fáa og honum sýnist. Sá frambjóðandi sem flest atkvæði hlýtur telst kjörinn. Kosningakerfið byggir því í raun á því að kjósandinn skipti frambjóðendum í tvo hópa:

  1. Þá sem kjósandinn styður eða telur ásættanlega eða hæfa í embættið
  2. Þá sem kjósandinn styður ekki eða telur ekki ekki ásættanlega eða hæfa í embættið.

Samþykktarkosning er venjulega notuð í kosningum þar sem er einungis einn sigurvegari (t.d. í forsetakosningum) en það má auðveldlega útfæra fyrir kosningar þar sem fylla þarf mörg sæti.

Kostir og gallar:

Samþykktarkosning gefur kjósendum færi á að segja álit sitt á öllum frambjóðendum og talning atkvæða er einföld og auðskiljanleg.

Rannsóknir benda til þess að notkun samþykktarkosningar leiði til vals á þeim frambjóðanda sem mest eining ríkir um og er þannig hliðhollt frambjóðendum sem taka hógværa afstöðu, en gerir frambjóðendum sem höfða til minni hópa og sérhagsmuna erfiðara fyrir.

Samþykktarkosning hvetur kjósendur til þess að kynna sér stefnumál margra eða allra frambjóðanda, þar sem þeir geta stutt fleiri en einn frambjóðanda með atkvæði sínu.

Samþykktarkosning flækir stundum val kjósenda. Segjum sem svo að kjósandi telji tvo (A og B) af fjórum frambjóðendum hæfa eða ásættanlega í embætti, en álítur engu að síður frambjóðanda A mun betri en frambjóðanda B. Kjósandinn getur ekki forgangsraðað frambjóðendum og getur því ekki lýst þessari afstöðu sinni með atkvæði sínu. Ef kjósandinn velur bæði A og B eykur það líkurnar á því að annar þeirra frambjóðanda sem hann getur hugsað sér að styðja vinni kosningarnar, en dregur um leið úr líkunum á því að sá frambjóðandi sem hann telur betri vinni. Því gæti kjósandinn valið að kjósa einungis frambjóðanda A, þó hann styðji einnig frambjóðanda B.

 

Stigakosning

Stigakosning (e. range voting) er samnefnari fyrir kosningakerfi sem byggja á því að frambjóðendum, eða valkostum, eru gefin stig.  Stigakosning hefur ekki verið notuð til vals þinga á seinni tímum en stigakosning var notuð í Spörtu til forna.  Hinsvegar er kerfið notað í ýmsum íþróttakeppnum, t.d., listdans á skautum og fimleikum.

Framkvæmd kosninga:

Hver kjósandi gefur hverjum frambjóðanda stig á tilteknu bili.  Hér einskorðum við umfjöllunina við stigakosningu þar sem kjósandinn getur gefið mest fimm stig (+5) og minnst mínus eitt stig (-1).  Kjósandanum er frjálst að gefa frambjóðendum sömu stig.  Kjósandi sem er mjög ánægður með alla frambjóðendurnar getur þannig gefið öllum frambjóðendunum fimm stig.

Talning atkvæða:

Sigurvegari kosninganna er sá frambjóðandi sem hlýtur flest stig.

Kostir og gallar:

Stigakosning er einföld í framkvæmd og er auðskilin.  Stigakosning gefur kjósendum líka færi á að lýsa áliti sínu á frambjóðendum nánar en flest önnur kosningakerfi.  Líkt og varaatkvæðið gefur stigakosning kjósendum færri á að raða frambjóðendum (svo lengi sem þeir eru ekki of margir) en auk þess býður stigakosning kjósendum uppá þann möguleika að gefa til kynna hversu mikið þeim líkar við (eða líkar ekki) við frambjóðendurnar.

Stigakosning er líkleg til að hvetja frambjóðendur til að gæta hófsemi og taka ekki of öfgakennda afstöðu.  Frambjóðendur sem halda sig á miðjunni eru líklegri til að fá stig frá þorra kjósenda á meðan frambjóðendur sem taka öfgakenndari afstöðu fá e.t.v. mörg stig frá þeim kjósendum sem aðhyllast slíkar stefnur en á móti eru þeir ólíklegir til að hljóta náð fyrir augum annarra kjósenda.  Þ.e.a.s., frambjóðendur eru líklegir til að hafa ríkari hvata til að höfða til stærri hóps kjósenda.

Stigakosning getur leitt til þess að fjöldi frambjóðenda eykst þar sem að kjósendur hafa ekki takmarkaðan fjölda atkvæða.  Nýr frambjóðandi þarf  þannig ekki að hafa áhyggjur af því hver áhrif framboðs hans eru á sigurmöguleika annarra frambjóðanda sem aðhyllast svipað stefnu. Fjöldi frambjóðanda er yfirleitt ekki talið alvarlegt vandamál en mikill fjöldi frambjóðenda flækir ákvarðanatöku kjósenda þar sem kjósendur þurfa að afla sér upplýsinga um fleiri frambjóðendur á sama tíma og hver frambjóðandi fær minni athygli í fjölmiðlum.  Ef kjósendur taka ákvarðanir á grundvelli upplýsinga um einungis hluta þeirra frambjóðenda sem í boði eru geta niðurstöður kosninganna verið tilviljanakenndar.

Úrslit stigakosningarinnar geta verið á þann máta að meirihluti kjósenda telur annan frambjóðanda betri kost en frambjóðandann sem var sigurvegari kosninganna.

Stigakosning getur líka flækt val kjósenda af sömu ástæðum og val þeirra getur verið snúið í samþykktarkosningakerfinu.