Írland

ÍrlandVaraatkvæði

Í lýðveldinu Írlandi er forsetaþingræði. Í kjölfar skiptingar Írlandseyju í tvennt árið 1921 var lýðveldið Írland myndað úr 26 sýslum (af þeim 32 sýslum sem mynduðu eyjuna).

Á Írlandi fer ríkisstjórnin með framkvæmdavaldið. Embætti leiðtoga ríkisstjórnarinnar eða forsætisráðherrans er nefnt “Taoiseach”.

Þjóðþingið (“Dáil Éireann”) fer með löggjafarvaldið. Þar sitja 167 þingmenn. Þeir eru kosnir til fimm ára af írskum ríkisborgurum, svo og breskum borgurum sem búsettir eru á Írlandi. Líkt og í öðrum þingræðisríkjum setur Dail Eirann lög og ákveður hver leiðir ríkisstjórnina (þó svo að Taoiseach séu formlega skipaðir af forseta lýðveldisins). Að beiðni Taoiseach getur forseti Írlands rofið þing og boðað til kosninga. Þingmenn eru kosnir hlutfallskosningu með forgangsröðunaraðferð (eða atkvæðisframsalsaðferð (e. Single Transferable Vote, STV).

Forseti lýðveldisins er kosinn beinni kosningu af írskum ríkisborgurum til sjö ára. Núverandi forseti Írlands er Michael D. Higgins, en hann var kjörinn í nóvember 2011. Vald forseta Írlands er skilgreint í írsku stjórnarskránni og með hefðum en í raun er vald forsetans mjög takmarkað og hefur embættið fyrst og fremst táknræna stöðu.

Í grundvallaratriðum er hlutverk forseta Írlands að tryggja jafnvægi á milli framkvæmdavaldsins (í höndum ríkisstjórnarinnar), löggjafarvaldsins (í höndum þingsins) og dómsvaldsins (í höndum réttarkerfisins). Forsetinn getur vísað frumvörpum til laga til Hæstaréttar, til skoðunar á því hvort þau brjóti á bága við stjórnarskrána. Forsetinn skipar forsætisráðherra (Taoiseach) formlega að tillögu Dail Eireann, og forseti lýðveldisins leysir Dail Eireann af, en það er einungis gert að beiðni Taoiseach. Forsetinn er kosinn samkvæmt kosningakerfi sem nefnt hefur verið varaatkvæði (“Alternative Vote”) og er í raun útfærsla forgangsröðunaraðferðarinnar fyrir einstaklingskjör.

Margir stjórnmálaflokkar bjóða fram í kosningum en tveir stærstu flokkarnir eru Fianna Fail og Fine Gael. Venjulega nýtur hvorugur flokkurinn þó nægilegs fylgis til þess að hljóta hreinan meirihluta á þinginu. Írskar ríkisstjórnir eru því venjulega samsteypustjórnir. Svo dæmi sé tekið, þá mynduðu Fine Gael, sem hlaut 36,1% atkvæða og 45,8% sæta á þinginu, og Labour Party (írski verkamannaflokkurinn), sem hlaut 19,4% atkvæða og 22,3% sæta á þinginu, samsteypustjórn árið 2011.

Kosningakerfið

Írska kosningakerfið nefnist, eins og áður segir, forgangsröðunarkosning og svipar til þess kerfis sem notað var í kosningum til stjórnlagaþings a Íslandi árið 2011. Kerfið byggir á því að kjósendur kjósi einn frambjóðanda. Þeir geta þó valið fleiri til vara og þurfa að númera þá í röð eftir stuðningi sínum. Sigurvegari kosninganna er sá frambjóðandi sem fyrstur hlýtur meirihluta atkvæða í 1. sætið.  Ef enginn frambjóðandi er með meirihluta atkvæða eftir þá talningu, er sá frambjóðandi sem fæst atkvæði hlaut í 1. sætið útilokaður og atkvæðum hans dreift á grundvelli varaatkvæða kjósenda, þ.e. hverja þeir kusu í 2. sætið. Hafi enginn frambjóðandi þá hlotið meirihluta atkvæða er sá sem hefur fæst atkvæði  aftur útilokaður og varaatkvæðum hans dreift á þá sem kjósendur hans settu í 3. sætið o.s.frv. Venjulega þarf því nokkrar umferðir talningar áður en sigurvegarinn er endanlega fundinn, líkt og sjá má í töflunni að neðan.

Síðustu kosningar

Sjö frambjóðendur gáfu kost á sér árið 2011. Eftir fyrstu umferð talningar atkvæða var niðurstaðan þessi:

  • Michael D. Higgins, 701 101 atkvæði
  • Seán Gallagher, 504 964 atkvæði
  • Martin McGuinness, 243 030 atkvæði
  • Gay Mitchell, 113 321 atkvæði
  • David Norris, 109 469 atkvæði
  • Dana Rosemary Scallon, 51 220 atkvæði
  • Mary Davis, 48 657 atkvæði

 

Frambjóðandi Fyrsta umferð Önnur umferð Þriðja umferð Fjórða umferð
Atkvæði % Atkvæði % Atkvæði % Atkvæði %
Michael D. Higgins 701 101 39,6 730 480 41,2 793 128 44,8 1 007 104 56,8
Seán Gallagher 504 964 28,5 529 401 29,9 548 373 31,0 628 114 35,5
Martin McGuinness 243 030 13,7 252 611 14,3 265 196 15,0 Útilokaður
Gay Mitchell 113 321 6,4 127 357 7,2 136 309 7,7 Útilokaður
David Norris 109 469 6,2 116 256 6,6 Útilokaður
Dana Rosemary Scallon 51 220 2,9 Útilokuð
Mary Davis 48 657 2,7 Útilokuð
Samtals
(kjörsókn: 56,11 %)
1 771 762 100,0 1 756 105 99,2 1 733 006 98,5 1 635 218 92,3

Það þurfti að telja atkvæði fjórum sinnum (eftir hverja umferð er frambjóðandinn með fæst atkvæði útilokaður) áður en Micael D. Higgins var kjörinn forseti. 39.6% kjósenda valdi hann í fyrsta sætið, eins og fram kemur í fyrstu umferð talningarinnar, og hlaut hann 701.101 atkvæði í það sæti.  Eftir að fimm frambjóðendur höfðu verið útilokaðir hlaut Higgins kosningu með 1.007.104 atkvæðum í öll sæti gegn 628.114 atkvæðum Seán Gallaghers.