Niðurstöður netkosningarinnar

Þátttaka:

Þátttakan í netkosningunum var góð.  Þegar kjörstöðum var lokað höfðu 3912 einstaklingar tekið þátt.  Þar af skiluðu 278 manns auðu (eða gáfu engum frambjóðanda stig) í öllum kosningakerfunum þannig að eftir standa 3634 einstaklingar.

Þátttaka í netkosningunni var valfrjáls og opin öllum þeim sem áhuga höfðu.  Nauðsynlegt er að benda á að markmið netkosninganna er ólíkt markmiðum almennra skoðanakannanna sem nota slembiúrtök, þ.e.a.s. markmiðið er ekki að mæla fylgi frambjóðenda enda tilgangslaust þar sem niðurstöður kosninganna eru ljósar þegar þetta er skrifað.  Markmið netkosninganna er að skoða hvort að kosningakerfi kunni að hafa merkjanleg áhrif á niðurstöður kosninga og atferli kjósenda.

Þar sem að netkosningin er ekki byggð á handahófsúrtaki er viðbúið að niðurstöðurnar netkosninganna sé ólíkar niðurstöðum kosninganna.  Þetta má glöggt sjá ef niðurstöður kosninganna eru bornar saman við úrslit netkosninganna þar sem meirihlutakosning í einni umferð var notuð:
 

Frambjóðendur AJÓ ATG HB ÓRG ÞA
Opinberar niðurstöður (%) 12 1,80 8,64 0,98 2,63 52,78 33,16
Netkosning (%) 2,89 13,11 0,77 6,52 25,11 51,60

 

Eins og sjá má er mjög mikil munur á niðurstöðunum – fylgi Ólafs Ragnars og Þóru snýst nánast við.  Ein skýringin á þessu er að Þóra virðist hafa notið mikils fylgis á meðal þeirra sem eru virkir á netinu og hafa áhuga á stjórnmálum eins og sjá má hér: http://datatracker.io/kosningar/4.  Það er því hæpið að draga sterkar ályktanir af niðurstöðunum um að kosningakerfið hafi skipt máli í þessum kosningum – sérstaklega þar sem Ólafur Ragnar sigraði með ríflega helming atkvæða.  Það er engu að síður áhugavert að skoða hversu miklu máli kosningakerfið skiptir þegar horft er á þátttakendur í könnuninni.

Ef við skoðum næst niðurstöður netkosninganna þegar kosningakerfið er meirihlutakosning í tveimur umferðum eru úrslit fyrri umferðarinnar þessi:
 

Frambjóðendur AJÓ ATG HB ÓRG ÞA
Netkosning (%) 3,67 17,03 0,82 7,39 22,84 48,25

 
Þóra og Ólafur Ragnar hljóta flest atkvæði í fyrstu umferðinni og keppa í seinni umferð kosninganna.  Áður en úrslit seinni umferðarinnar eru skoðuð er athyglisvert að skoða hvort að atferli þátttakenda breytist eftir því hvort um er að ræða eina eða tvær umferðir.  Færri þátttakendur kusu Ólaf Ragnar og Þóru þegar tvær umferðir eru haldnar.  Ekki er um stórkostulega breytingu að ræða – fylgi hvors um sig dregst saman um 2-3 prósentustig.  Þó að þessi breyting kunni að virðast óveruleg þá er rétt að benda á að forskot Ólafs Ragnars á Ara Traust fer úr 12 prósentustigum í tæp 6 prósentustig.  Frambjóðendurnir hefðu óneitanlega þurft að hafa meiri áhyggjur af Ara Trausta ef um tveggja umferða kosningu hefði verið að ræða.
 

Öll hugsanleg einvígi í seinni umferð:

Frambjóðandi (%) (%) Frambjóðandi
Ólafur Ragnar 34 66 Þóra
Ólafur Ragnar 59 41 Hannes
Ólafur Ragnar 31 69 Ari Trausti
Ólafur Ragnar 48 52 Herdís
Ólafur Ragnar 56 44 Andrea
Hannes 17 83 Þóra
Hannes 8 92 Ari Trausti
Hannes 34 66 Herdís
Hannes 43 57 Andrea
Þóra 57 43 Ari Trausti
Þóra 71 29 Herdís
Þóra 78 22 Andrea
Ari Trausti 75 25 Herdís
Ari Trausti 82 18 Andrea
Herdís 61 39 Andrea

 
Samkvæmt þessu sigrar Þóra Ólaf Ragnar í seinni umferð kosninganna með meirihluta atkvæða. Það er athyglisvert að jafnvel þó að Ólafur hafi komist í seinni umferðina í úrtaki netkosninganna á hefði hann beðið lægri hlut fyrir þremur af fimm meðframbjóðendum sínum sem vekur þá spurningu hvort einhver hinna frambjóðendanna hefði getað sigrað Þóru í seinni umferðinni. Svarið er nei. Í úrtaki netkosningarinnar sigrar Þóra nokkuð örugglega sama hvern hún háir einvígi við í seinni umferðinni.
 

Stigakerfið:

Frambjóðendur AJÓ ATG HB ÓRG ÞA
(%) 2792 8404 1911 4131 4173 9332

(Niðurstöður netkosningar)

Þóra Arnórsdóttir telst kjörin með 9332 stig. Ari Trausti hlaut næstflest stig, 8404, rétt rúmlega 900 færri stigum en Þóra og meira en tvöfalt fleiri stig en sá frambjóðandi sem næst kom.
 

Varaatkvæðiskerfið:

Frambjóðendur AJÓ ATG HB ÓRG ÞA
Talning 1 (%) 4 17 1 8 24 47
Talning 2 (%) 4 17 8 24 48
Talning 3 (%) 18 9 25 48
Talning 4 (%) 21 28 51

(Niðurstöður netkosningar)

Þóra Arnórsdóttir telst kjörin með 51% atkvæða. Hannes og Andrea féllu fyrst úr leik. Eftir þriðju umferð talningar féll Herdís úr leik og atkvæðis stuðningsmanna hennar skiptust tiltölulega jafnt á milli frambjóðenda þriggja sem eftir stóðu. Það dugði hinsvegar Þóru til að að vera komin hreinan meirihluta atkvæða.
 

Samþykktarkosning:

Frambjóðendur AJÓ ATG HB ÓRG ÞA
(% approbation) 17 53 11 28 34 60

(Niðurstöður netkosningar: Hlutfall sem gáfu samþykktaratkvæði)

Þóra Arnórsdóttir telst kjörin með samþykktaratkvæðum 60% þátttakenda. Ari Trausti kom næstur með samþykktaratkvæði 53% þátttakenda og Ólafur Ragnar kom þarnæstur með samþykktaratkvæði 34% þátttakenda.

Eins og sjá má höfðu kosningakerfin sem notuð voru ekki áhrif á niðurstöður kosningakanna – til þess voru yfirburðir Þóru Arnórsdóttur á meðal þátttakenda í könnuninni of miklir. Ef mikil eining ríkir á meðal kjósenda skiptir kosningakerfið ekki máli. Með frekari greiningu á gögnunum – með því að leiðrétta fyrir úrtaksskekkjuna í gögnunum – er hugsanlegt ad segja megi eilítið meira um hvort að kosningakerfið hafði áhrif á niðurstöður kosninganna. Eins og fyrr segði er það þó fremur ólíklegt vegna þess hver öruggur sigur Ólafs Ragnars var. Hafa verður þó í huga að þeir frambjóðendur sem líklegastir eru til þess að lenda í fyrst eða öðru sæti hagnast á því þegar hluti kjósenda kýs taktískt og þannig er mögulegt að kosningakerfið hafi haft einhver áhrif á úrslitin. Niðurstöður þeirrar greinar verða birtar hér innan skamms.